FRÆÐSLA
Útinám
Í útinámi fá nemendur tækifæri til að glíma við viðfangsefni og læra af þeim í stað þess að lesa um þau í bók. Gildi útikennslu eru þau að nemendur upplifa náttúru og umhverfi, kynnast nýjum víddum sem gera námið skemmtilegra og áþreifanlegra, nemendur þjálfast í að nýta skynfæri sín, nýta vísindaleg vinnubrögð og auka tengsl við nánasta umhverfi. (Hafdís Unnsteinsdóttir, 2011).
Segja má að sú hugmyndafræði sem liggur að baki útikennslu hafi í sjálfu sér verið við lýði í óratíma þar sem börn lærðu áður af því að fylgjast með daglegri vinnu þeirra sem eldri voru og fengu að takast á við margskonar verkefni við raunverulegar aðstæður (Lýðheilsustöð, 2008: 59).
Útinám nýtur sívaxandi vinsælda, meðal annars á Norðurlöndunum, sem góð leið til að efla alhliða þroska barna og færa þau aftur nær raunveruleikanum. Útikennsla er ekki ákveðin námsgrein heldur kjörin vinnuaðferð sem býður upp á mikla fjölbreytni í kennsluaðferðum og að skipuleggja og samþætta námssvið á ýmsa vegu. Útikennsla þarf ekki að vera viðamikil og flókin í framkvæmd en hún krefst ákveðins skipulags.
Jordet (1998: 25) setur fram þrískipt líkan sem útskýrir hvernig gott sé að fara að:
- Fyrst fer fram undirbúningur þess sem nemendur munu gera þegar út er komið. Það getur verið nauðsynlegt að ræða eða lesa um viðfangsefnið áður en lagt er af stað.
- Næst er það upplifunin utandyra þar sem börnin fá tækifæri til að framkvæma verkefnið. Til þess þurfa þau að nota skynfæri sín, fá að skoða og upplifa, reyna á sig og rannsaka.
- Að lokum er svo úrvinnslan og íhugunin sem getur í sjálfu sér bæði farið fram utan og innandyra.
(Heimildir: Árný Hekla Marinósdóttir)