top of page

FRÆÐSLA

Fuglar á svæðinu

Fuglalífið á Seltjarnarnesi er einstaklega fjölskrúðugt til dæmis við Gróttu og Bakkatjörn. Fjölmargar tegundir fugla verpa reglulega á Nesinu og meðal þeirra eru krían, gargönd, æður og stokkönd.

Fram til ársins 1957 höfðu sést 83 fuglategundir á Seltjarnarnesi en til 1992 höfðu sést eigi færri en 106 fuglategundir. Sumar þeirra eru aðeins flækingar sem sést hafa í fá skipti. Margar tegundir eru íslenskir varpfuglar en aðrar eru svokallaðir fargestir eða umferðarfuglar, sem verpa ekki hér á landi en stoppa við á ákveðnum tímum árs. Að lokum eru það vetrargestir sem dvelja á svæðinu um lengri eða skemmri tíma yfir vetrarmánuðina.

Af varpfuglunum er krían lang algengust. Aðalvarpstaðir hennar eru í Gróttu, á Suðurnesi í kring um golfvöllinn, við Bakkatjörn og í Snoppu. Níu tegundir af andfuglum verpa á Nesinu, flestar þeirra sjaldgæfar, nema æðarfuglinn sem er önnur algengasta fuglategund svæðisins.

 

Á Nesinu verpa einnig stokkönd, gargönd, duggönd, skúfönd, hávella og toppönd. Grágæs hóf varp á Nesinu í lok sjötta áratugarins. Svanahjón hafa nýlega hreiðrað um sig í hólmanum í Bakkatjörn.

Vaðfuglategundirnar eru sjö og þar eru stelkur og sandlóa algengust. Mikið ber á Tjaldi, en hann er í þriðja sæti hvað fjölda varpfuglapara snertir. Sex tegundir af spörfuglum verpa á Nesinu og er Starri algengastur, þar næst Þúfutittlingur og Maríuerla í þriðja sæti. Hrafn verpir ekki á Nesinu en er hins vegar algengur gestur við sjávarsíðuna á veturna.

Grótta hefur um skeið verið friðlýst svæði og í nóvember 2000 var Bakkatjörn og nánasta umhverfi hennar friðlýst að frumkvæði Umhverfisnefndar. Friðlýsingin er stórt skref framávið fyrir umhverfisvernd á Seltjarnarnesi en Valhúsahæð, Seltjarnarnesfjörur og Suðurnes hafa verið á Náttúruminjaskrá síðan 1981.

Fuglavefur Menntamálastofnunar er með ítarlegar upplýsingar um helstu fuglategundir sem finnast á Íslandi.

https://fuglavefur.is/

Kría

https://fuglavefur.is/birdinfo.php?val=1&id=14

 

Gargönd

https://fuglavefur.is/birdinfo.php?val=1&id=57

 

Æður

https://fuglavefur.is/birdinfo.php?val=1&id=37

 

Stokkönd

https://fuglavefur.is/birdinfo.php?val=7&id=32

Selir og annað dýralíf

Selir og hvalir hafa sést við strandlengjur Seltjarnarness í gegnum tíðina. Landselur hefur verið langalgengasta selategundin á sundunum við Seltjarnarnes en einnig hefur sést til útsela.

 

Selir

https://www.ni.is/dyr/spendyr/selir

 

Selasetur Íslands

https://selasetur.is/is/selir-vid-island/

 

Hvalir eru fremur fátíðir í sjónum fast við strendur Seltjarnarness. Nokkrar heimildir eru þó um hvalreka og lifandi hvali í sjónum undan ströndinni. Ýmsar hvalategundir eru e.t.v. allalgengar á sundunum umhverfis Nesið, s.s. hnísa, hnýðingur og háhyrningur.

Hvalir

https://www.ni.is/biota/animalia/chordata/mammalia/hvalir-cetacea

https://www.nat.is/Hvalir/hvalir%20inngangur.htm

Af snæsniglum sem lifa á þörungum eru ýmsar dopputegundir algengar. Nákuðungur er einnig áberandi. Kræklingur og mæruskel eru helstu skeljategundirnar. Hrúðukarlar eru ekki algengir en finnast þó sumstaðar. Ýmsar tegundir af marflóm og þanglúsum leynast í þangbreiðunum og snúðormar sitja í hvítum snúðlaga pípum á sagþangi og skúfþangi. Í Bakkavík og við innanverða Seltjörn skilur sandmaðkurinn eftir sig sandhrauka á fjöru og setur þar með svip sinn á umhverfið. Krossfiskar, bogkrabbar og marglyttur finnast einnig í fjöruborðinu.

 

(Úr bókinni Náttúrufar á Seltjarnarnesi og http://www.seltjarnarnes.is/umhverfi/).

 

Hvernig varð Seltjörn á Seltjarnarnesi til?

bottom of page