top of page

FRÆÐSLA

Aðalnámskrá

Umhverfismennt

Náttúran er viðkvæm og hana þarf að umgangast af mikilli gát og virðingu. Náttúrufræðinám í grunnskóla þarf að taka mið af þessu. Íslendingar eru hluti af samfélagi þjóða og börn eiga að vera meðvituð um að mannlegar ákvarðanir og gjörðir hafa áhrif á sameign allra jarðarbúa. Umhverfismennt miðar að því að fólk gefi umhverfi sínu gaum og beri umhyggju fyrir því. Þörf er á að skerpa skynjun nemenda á umhverfinu og þjálfa þá í að aðgreina eigin aðstæður (Aðalnámskrá, 2011).

Menntun til sjálfbærni

Í sjálfbærnimenntun felst að skapa samábyrgt samfélag þar sem sérhver einstaklingur er þroskaður sem virkur borgari, meðvitaður um gildi, viðhorf og tilfinningar sínar gagnvart hnattrænum áhrifum og jafnræði allra jarðarbúa; náttúru og umhverfi; lýðræði, mannréttindum og réttlæti; jafnrétti og fjölmenningu; velferð og heilbrigði; og efnahagsþróun og framtíðarsýn (Mennta- og menningarmálaráðuneytið, 2011a, bls. 17).

Sköpun

Samkvæmt aðalnámsskrá grunnskólanna felst sköpun í því að uppgötva, njóta, örva forvitni og áhuga, virkja ímyndunarafl og leika sér með möguleika. Kennarinn sér um að miðla til nemenda í gegnum sköpunarferlið, kenna gagnrýna hugsun og opna huga og sýn nemenda fyrir einhverju nýju. Sköpunargleði leiðir einnig til meiri námsáhuga nemenda þegar að viðfangsefnið er skýrt og skilmerkilegt og hefur ákveðin gildi (Aðalnámsskrá, 2011).

bottom of page