top of page

FRÆÐSLA

Seltjarnarnes

Seltjarnarnes.png

Seltjarnarnes er nes á suð-vesturhluta Íslands, sunnan Kollafjarðar. Yst á nesinu er Seltjarnarnesbær, minnsta sveitarfélag Íslands.


Seltjarnarnes er allt láglent. Valhúsahæð stendur hæst, eða 31 metri yfir sjávarmáli. Á Nesinu eru víða góð svæði til náttúruskoðunar og lögð er áhersla á verndun umhverfisins. Grótta og Bakkatjörn eru friðlönd og hluti Valhúsahæðar er friðlýstur á grundvelli náttúruverndarlaga. Auk þess er efsta svæði hæðarinnar Seltjarnarnesfjörur og Suðurnes á náttúruminjaskrá.

Veðurfar á Seltjarnarnesi er fjölbreytt og gefur mikil tækifæri til ýmissa athuganna og mælinga. Einnig eru árstíðirnar endalaus uppspretta í útikennslu. Eitt af því sem helst einkennir náttúrufar þar er nálægð við hafið en stór hluti Nessins liggur fyrir opnu hafi. Fjörurnar og strandsvæðið eru vinsæl útivistarsvæði.

 

Víða er að finna sandfjöru að sunnan- og vestanverðu en stórgrýttara svæði að norðanverðu. Varnargarðar hafa verið byggðir upp meðfram stórum hluta strandarinnar til að verjast ágangi sjávar.

 

Fjörurnar eru tilvaldar fyrir vettvangsferðir. Þar eru margar þeirra tegunda sem lifa við Íslandsstrendur, svo sem doppa, nákuðungur, bogkrabbi, hrúðurkarl, fjöruflær, kuðungakrabbi, kræklingur og fleiri. Í sjónum sjálfum leynast einnig áhugaverð dýr og það er jafnvel hægt að koma auga á seli og einnig hvali eins og hnísu.

 

Á Nesinu er mikið og fjölskrúðugt fuglalíf, til dæmis við Gróttu og Bakkatjörn. Árið 1996 voru skráðar 106 tegundir. Margar þeirra eru íslenskir varpfuglar en aðrir eru svokallaðir fargestir sem koma við vegna fæðumöguleika á Nesinu á leið sinni, til dæmis til Grænlands og Kanada. Einnig eru sumar tegundir aðeins flækingar á svæðinu og hafa aðeins sést í fá skipti.

 

Gróðurfar þar er nokkuð fjölbreytt miðað við stærð svæðisins. Stærstu gróðurlendin eru tún og graslendi en þar hafa verið skráðar 140 tegundir plantna sem er um 32% íslensku flórunnar. Meðal tegunda má nefna túnfífil, njóla, lokasjóð og brennisóley. Einnig hefur nokkuð mikið verið um trjárækt á ýmsum skipulögðum svæðum. Því er hægt að sjá þar ýmsar gerðir grenitrjáa, birki, ösp og fleiri.

 

Á Gróttu er eyja við nyrsta hluta nessins og er hún að mestu í óbyggð. Áður fyrr var hún tengd við land en vegna landsigs og landbrots er hún nú eyja. Að vísu er hún enn landtengd með granda sem stendur upp úr á fjöru. Þar má finna vita og örfá hús auk þess sem þar hefur verið komið upp fræðasetri. Viti hefur verið í eyjunni frá árinu 1897 en sá viti sem er þar nú var reistur eftir seinni heimstyrjöldina og hefur verið í notkun frá árinu 1947.

 

Í setrinu er góður salur með borðum fyrir um 30 manns og á loftinu 41 er gistiaðstaða fyrir sama fjölda. Í kjallara er vinnuaðstaða fyrir nemendur til að vinna úr verkefnum sem tengjast veru þeirra í Gróttu. Markmið fræðslustarfsins í Gróttu er að náttúra og umhverfi Seltjarnarness nýtist á fjölbreyttan hátt, bæði fyrir börn og fullorðna. Staðurinn er tilvalinn til útikennslu. Hægt er að komast fótgangandi út í Gróttu á fjöru en nauðsynlegt er að afla sér upplýsinga um það hvenær er flóð og hvenær er fjara. Hér er hægt að fá upplýsingar um það.

Seltjarnarnesbær

 

 

 

bottom of page