FRÆÐSLA
Grenndarnám
Markmið grenndarnáms er að gera nemendur læsa á nánasta umhverfi sitt bæði landfræðilega, náttúrufræðilega og menningarlega. Út frá því viðfangsefni er svo sjóndeildarhringurinn víkkaður og litið til fjarlægari staða (Eygló Björnsdóttir, 2003).
Grenndarnám felur í sér þverfagleg vinnubrögð nemenda og kennara þar sem hin ýmsu fög eru samþætt grenndarkennslunni og tilraunir og rannsóknir innan viðfangsefna. Grenndarnám verður þannig fjöbreytt og einstaklingsmiðað. Nemendur þurfa að læra að vinna saman og taka þátt í félagslegum athöfnum nærsamfélagsins þar sem áherslan er á menningu, vistfræði og sjálfbærni.
Grenndarnám fellur vel inn í boðskap áhrifamikilla kennimanna um kennslufræði s.s. John Dewey, Rudolph Steiner, Elliot Eisner og Howard Gardner. Aðrir áhugaverðir kennismiðir eru Smith & Sobel, Margaret J. Somerville og David E. Grunewald (Greenwood). Einnig var Guðmundur FInnbogason frumkvöðull þegar kom að útinámi og grenndarnámi.
Umhverfismennt
Umhverfismennt miðar að því að fólk gefi umhverfi sínu gaum og beri umhyggju fyrir því. Vekja skal athygli á umhverfinu og þeim vandamálum sem bíða úrlausnar, þjálfa nemendur í að skilgreina, leysa og koma í veg fyrir umhverfisvanda og efla ábyrgð gagnvart umhverfinu og vilja til að vinna að náttúruvernd og fegurð umhverfisins (Eygló Björnsdóttir, 2003).
Sjálfbærni
Sjálfbærni nær utan um hringrásina. Hún byggist á því að komandi kynslóðir geti notið þeirra auðlinda sem jörðin hefur upp á að bjóða líkt og núverandi kynslóðir hafa gert. Við eigum að gæta þess að trufla ekki eðlilega ferla náttúrunnar, þessa hringferla. (Náttúruþankar, bls.30)