top of page

SKAPANDI

Hvað einkennir skapandi hugsun og skapandi aðferðir?

  • Þegar börn læra að vinna á skapandi hátt þá er niðurstaðan ekki fyrirfram gefin heldur fá þau sjálf tækifæri til að gera tilraunir og prófa sig áfram til að komast að niðurstöðu og jafnvel ólíkum niðurstöðum.

  • Með því að fá tækifæri til að prófa sig áfram og vinna verkefni sem byggja á þeirra eigin reynslu æfa þau sig í að takast á við vandamál og finna lausnir á þeim sjálf.

  • Það er nauðsynlegt að kenna börnum að til séu fleiri en ein lausn á vandamálum og að það geti stundum verið fleiri en eitt svar við sömu spurningunni. Sá skilningur hjálpar þeim að takast á við allar þær ólíku áskoranir sem þau eiga eftir að standa frammi fyrir í lífinu. Einnig er gott að opna augu þeirra fyrir fjölbreyttum aðferðum og möguleikum listsköpunar og minna þau á að þekking okkar takmarkast ekki við tungumálið. Sjónlistakennsla getur hjálpað öllum þeim fjölda barna sem eiga erfitt með að koma hugmyndum sínum í orð.

Listsköpun

  • Listsköpun kennir okkur að sjá hluti í nýju ljósi og setja hugmyndir í nýtt samhengi.

  • Við lærum að gefa gömlum hlutum ný hlutverk, umbreyta þeim eða endurbæta. Í síbreytilegum heimi þurfum við að hafa getu til að endurskilgreina, endurmeta og endurhugsa hefðir, hugmyndir, gildi, lög og reglur. Það er nauðsynlegt að geta gert það á gagnrýnan og skapandi hátt.

  • Einnig kennir listnám okkur að setja hugmyndir, hluti og okkur sjálf í samhengi við umhverfi okkar og umheiminn. Listnám leyfir okkur að þróa með okkur sjálfstæða hugsun, deila þeim með öðrum og læra af öðrum. 

Barnasáttmáli Sameinuðu Þjóðanna

  • Samkvæmt 31.gr. Barnasáttmála Sameinuðu Þjóðanna eiga öll börn rétt til frjálsrar þátttöku í menningu og listum. Samkvæmt 29. grein sáttmálans er markmið menntunar að gefa börnum tækifæri til að þroskast á eigin forsendum, rækta hæfileika sína og undirbúa þau til að lifa ábyrgu lífi í frjálsu þjóðfélagi í anda skilnings, friðar, umburðarlyndis, jafnréttis kynjanna og vináttu allra þjóða og þjóðernishópa. Stuðla ber að virðingu fyrir mannréttindum, mismunandi menningarlegri arfleifð, tungu og gildismati, öðru fólki og náttúrulegu umhverfi mannsins.

Aðalnámskrá 

  • Í Aðalnámskrá er sérstaklega tekið fram að sjónlistir henti vel til þess að skilja heiminn svo við verðum virkir gagnrýnir samfélagsþegnar sem geta látið gott af sér leiða. Í myndmennt er unnið markvisst með skynjun, greiningu og túlkun sem veitir nemendum forsendur til að sjá það sem þeir horfa á, heyra það sem þeir hlusta á, finna það sem þeir snerta og skapa út frá reynslunni. Það að þroska með sér gagnrýna og skapandi hugsun í gegnum sjónlistir þjálfar nemendur í að bera kennsl á vandamál samfélagsins og finna lausnir á þeim.

  • Listir og verkþekking mynda stóran og fjölskrúðugan atvinnuvettvang bæði hérlendis og erlendis. Framfarir á sviði tækni og vísinda eru byggðar á þekkingu og færni sem á rætur í verkmenningu. Þótt tæki og vélar hafi leyst manninn af hólmi við ýmis störf er þekking á verkferlum, táknfræði, skipulagi og verkaskiptingu nauðsynleg undirstaða tæknilegrar og listrænnar þróunar. Slík verkfærni samhliða listfengi er því nauðsynleg undirstaða í allri þróun. Jafnvægi milli bóklegs og verklegs náms stuðlar að jafnrétti nemenda til að finna hæfileikum sínum farveg.

bottom of page