FRÆÐSLA
Mannvirkið Ljóskastarahúsið við Urð á Suðurnesi er einstakt á Íslandi og mikilvæg heimild um hernámstímann og umsvif breska setuliðsins hér á landi. Húsið er 26 fm. Að grunnfleti, steinsteypt ofan á grjóthleðslu. Gólf, veggir og þak eru úr steinsteypu. Á heimasíðu Minjastofnunar segir að mannvirkið sé einstakt á Íslandi og mikilvæg heimild um hernámstímann og umsvif breska setuliðsins hér á landi.
Húsið var byggt utan um ljóskastara við upphaf seinni heimstyrjaldar, veturinn 1940-41. Húsið var hannað af Lloyd Benjamin, verkfræðingi breska setuliðsins. Sami höfundur teiknaði gamla flugturninn á Reykjavíkurflugvelli, sem friðaður var af ráðherra árið 2011.
Ljóskastarinn var hluti af varnarbúnaði breska hersins við innsiglinguna að Reykjavík. Húsið tengdist herskálahverfi á Suðurnesi og er eina mannvirkið sem eftir er frá þeim tíma. Húsið er hið eina sinnar tegundar hér landi en vitað er um svipuð hús í Færeyjum, við Lossie í Skotlandi og í Ástralíu. Ekki hafa fundist nákvæmlega eins hús og því kann húsið við Urð að hafa fágætisgildi á heimsvísu.
Ljóskastarahúsið var friðað árið 2019.