Um verkefnið
Úti í Gróttu er verkefnabanki í sjónlistum unninn fyrir Seltjarnarnesbæ með styrk frá Nýsköpunarsjóði Námsmanna. Verkefnið þróaðist út frá námskeiði í kennslufræði í Listaháskóla Íslands. Námsvefurinn er verkefnabanki sem er hugsaður sem efni sem kennarar geta notað, stuðst við og aðlagað eigin kennslu.
Verkefnin tengjast kennileitum og húsum á Gróttusvæði á Seltjarnarnesi. Hver staður hefur sína síðu þar sem hægt er að skoða fræðsluefni og hlaða niður verkefnum tengd hverjum stað. Verkefnin eru aldursskipt í yngri hóp og eldri hóp. Verkefnið var unnið sumarið 2020 og er í þróun. Stefnt er að því að móta listasmiðjur út frá námsefninu.
Námsefnið
Námsefnið inniheldur mismunandi verkefni sem nýta náttúruna til útináms og listsköpunar og nota til þess ólíkar aðferðir sjónlista í bland við útinám, grenndarnám og umhverfismennt. Verkefnin eru unnin út frá menningu og umhverfi Gróttu á Seltjarnarnesi en hægt er að staðfæra og aðlaga verkefnin öðru umhverfi. Verkefnin miða að því að opna augu barna fyrir skapandi aðferðum sjónlista þar sem áhersla er lögð á rannsóknir, tilraunir, að skerpa athyglina, hlúa að umhverfinu og láta sig aðra varða.
ā
Meginmarkmið verkefnisins er að höfða til samfélagslegrar ábyrgðar um nýtingu staðbundins efniviðs og efla umhverfisvitund, og auka fjölbreyttni í námi og kennsluháttum með áherslu á umhverfismennt, list- og verkgreinar. Með verkefninu vil ég vekja áhuga barna á listsköpun í tengslum við nærumhverfið.
Verkefnið tekur mið af áherslum Norrænu ráðherranefndarinnar sem segir að vinna að sjálfbærri þróun sé meðal mikilvægustu áskorana sem við stöndum frammi fyrir á okkar tímum. Í stefnu nefndarinnar til ársins 2025 er lögð áhersla á að efla þverfaglegt samstarf á sviði norræns velferðarkerfis, lífvænlegs vistkerfis, breytts loftslags, sjálfbærar nýtingar auðlinda jarðar ásamt menntun, rannsóknum og nýsköpun, m.a. með virku samstarfi vísinda- og listamanna, og skapandi kennsluaðferðum við menntun barna.
ā
Verkefnið tekur mið af 29. og 31.gr. Barnasáttmála Sameinuðu Þjóðanna.
Um höfund
Marta María Jónsdóttir er sjálfstætt starfandi myndlistarkona og stundarkennari við Myndlistaskólann í Reykjavík. Hún hefur Diploma gráðu í kennslufræði sjónlista frá Listaháskóla Íslands og Mastersgráðu í myndlist frá Goldsmiths College í London. Hún hefur haldið einkasýningar og tekið þátt í samsýningum í söfnum og sýningarsölum.